Búnir að ná tökum á ástandinu

mbl.is/Jónas

„Við lítum svo á, það er að segja Vegagerðin, að okkar hlutverk hafi verið að sjá um að vaðið væri fært og hafa þarna þau tæki og tól til þess að hægt sé að fara þarna yfir,“ segir Gunnar Gunnarsson, aðstoðarvegamálastjóri. Það sé síðan hlutverk lögreglunnar og björgunarsveita að vera með stjórn á vettvangi varðandi það hvernig þessir flutningar fari fram og að ekki sé farið í ána þegar hún er ekki talin fær.

„Það má líkja þessu bara við veg. Við sjáum um að vegurinn sé fær á meðan lögreglan sér um það eins og alltaf er að umferðin sé greið um veginn,“ segir Gunnar. Þetta sé í raun nákvæmlega sama fyrirkomulag í grunninn.

Gunnar segir að í samræmi við þetta hafi verið ákveðið í morgun að fastur lögreglumaður yrði á staðnum sem hefði í raun æðsta vald og honum til fulltingis yrði maður frá Vegagerðinni sem væri á leið á staðinn. Þeir myndu sjá um að taka samræmdar aðgerðir um framvindu málsins.

Hann segir að með þessu telji menn sig aftur vera að ná tökum á ástandinu í kjölfar óhappsins í gær þegar rúta sem notuð var til þess að flytja fólk yfir Múlakvísl valt næstum á leið yfir ána.

mbl.is