Lækkuðu varnargarð til öryggis

Bráðabirgðabrú var gerð yfir Múlakvísl á mettíma.
Bráðabirgðabrú var gerð yfir Múlakvísl á mettíma. mbl.is

Varnargarður ofan og austan við nýju brúna yfir Múlakvísl var lækkaður á kafla í nótt til að vatn hlypi til austurs og tæki þá frekar veginn í sundur en að nýja brúin færi. Ekki kom þó til þess að vatn flæddi yfir lækkaða varnargarðinn, að sögn Vegagerðarinnar í Vík.

Sem kunnugt er var veginum lokað á tímabili í nótt þegar vatnsrennsli og leiðni jókst mikið í Múlakvísl. Enn er mikið rennsli í ánni þótt úr því hafi dregið, að sögn Vegagerðarinnar. 

Verktakafyrirtækið Suðurverk, sem enn er á staðnum með mannskap og tæki, fór á vettvang og lækkaði varnargarðinn ofan og austan við nýju brúna á kafla. Vatnsborðið hætti að hækka áður en til þess kæmi að vatn færi yfir garðinn. 

Nýja bráðabirgðabrúin er heldur lengri en gamla brúin var. Sú nýja er um 150 metrar en sú sem fór í flóðinu á dögunum var 128 metra löng. Farvegurinn undir brúnni flytur því heldur meira vatn en áður. 

mbl.is