Ungur ógæfumaður reyndi að ræna verslun 10-11 í Glæsibæ á fjórða tímanum í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var hann með flík yfir andlitinu og vopnaður klaufhamri.
Ránið mistókst hins vegar og var hann handtekinn af lögreglu inni í versluninni sem er opin allan sólarhringinn.
Pilturinn, sem er fæddur 1992 og er því 19 ára á þessu ári, gaf þá skýringu við lögreglu að hann væri bæði heimilislaus og peningalaus og því hafi hann ætlað að ræna verslunina.
Að öðru leyti var nóttin róleg hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Fremur fámennt var í miðborginni enda Hinsegin dagar um síðustu helgi og Menningarnótt um næstu helgi.