Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir að nýtingarsamningar sem gert er ráð fyrir í kvótafrumvarpi sjávarútvegsráðherra séu til of skamms tíma. Það skapi óvissu sem sé slæm fyrir bankann og atvinnugreinina.
Forystumenn úr ríkisstjórnarflokkunum hafa gagnrýnt Landsbankann harklega fyrir umsögn hans um frumvarp sjávarútvegsráðherra um framtíðarfyrirkomulag fiskveiðistjórnunar. Þessi óánægja kom meðal annars fram á fundi flokksráðs VG um helgina. Þar sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, bankann haga sér eins og eiturlyfjasjúkling sem heimtaði meira dóp. Steinþór vildi ekki tjá sig um þessi ummæli, sagði þau dæma sig sjálf, en vísaði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem hvatt er til málefnalegrar umræðu og að gagnrýni fái að koma fram.
Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður sjávarútvegsnefndar, gagnrýnir í grein að bankinn gefi sér þá forsendu fyrir umsögn sinni að aflaheimildir komi ekki til endurúthlutunar eftir fimmtán ár og það muni skerða lánveitingar til sjávarútvegsins.
Steinþór svarar því til að óvissa sé um það hvað gerist eftir fimmtán ár og það hafi áhrif á viðskiptavini Landsbankans og áhættu útlána hans. Fimmtán ár séu of skammur tími. „Ég hvet alla til að lesa vel greinargerð okkar. Vonandi þroskast málið í meðferð Alþingis og við fáum niðurstöðu sem sátt er um,“ segir Steinþór.