Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að Björn Sigurðsson rútubílstjóri hafi aldrei nefnt neina upphæð við Vegagerðina og því hafi það verið þeirra mat að greiða honum 300 þúsund krónur í bætur fyrir það tjón sem hann lenti í í Múlakvísl í sumar.
Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær er Björn ósáttur við upphæðina sem Vegagerðin býður honum en rúta hans fór á bólakaf í Múlakvísl þegar hann var fenginn til að ferja fólk yfir ána eftir að brúin fór í sundur 9. júlí sl. Hann segir tjónið á rútunni líklega vera upp á 4,6 milljónir.
„Við buðum honum 900.000 kr. í heildina fyrir hans þátt, hann vinnur í um tvo daga og lendir svo í þessu óhappi. Við höfum annars vegar verið að meta hans kostnað við flutningana á meðan hann var í þeim og að reyna að taka einhvern þátt í tjóninu. En hann hefur aldrei nefnt neinar tölur við okkur,“ segir Hreinn.