Júlía Rós Júlíusdóttir er 30 ára, tveggja barna móðir í Mosfellsbæ. Hún vinnur kyrrsetuvinnu og segist þurfa að passa sig svo hún fitni ekki. „Ég hef alla tíð verið nokkuð grönn en hef samt sem áður ekki alltaf verið á þeim stað sem ég hefði óskað mér að vera á. Maður þarf alls ekki að vera í yfirþyngd til þess að fara í átak. Ég hef fulla trú á að það sé alveg hægt að fara úr ágætisformi í Hollywood-form.“
Júlía Rós hefur alls ekki verið óhreyfð síðustu 10 árin og hefur mætt samviskusamlega í ræktina klukkan sex á morgnana alla virka daga síðustu ár. „Ég hef verið í hóptímum, með þjálfara í sal, úti að hlaupa, í einkaþjálfun og hef alltaf haft mikinn aga.“
Þegar Júlía Rós sótti um að komast í Stjörnuþjálfun sagðist hún hafa fulla trú á að Anna Eiríks gæti komið henni út úr „jójóinu“.
„Ég held að það veiti mikið aðhald að gera þetta í fjölmiðlum og sé ennþá meira spark í rassinn.“