Flestir með íslenskt ríkisfang

Matargjafir hjá Fjölskylduhjálp Íslands.
Matargjafir hjá Fjölskylduhjálp Íslands. mbl.is/Ómar

Flestir þeirra sem leituðu til Fjölskylduhjálpar Íslands á tímabilinu 1. júní í fyrra til 31. maí sl. voru með íslenskt ríkisfang, eða 68%. Fimmtungur var með pólskt ríkisfang og 12% voru með annað erlent ríkisfang. Konur voru í meirihluta þeirra sem leituðu eftir aðstoð.

Í nýrri skýrslu sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur unnið fyrir Fjölskylduhjálp Íslands um lýðfræðilegar upplýsingar um þá sem þurfa að sækja sér mataraðstoð til FÍ.  Hátt í 2.500 börn búa hjá foreldrum sem leita eftir mataraðstoð. Alls var 23.784 matargjöfum úthlutað til 3.562 einstaklinga og fjölskyldna þeirra á því tímabili. Samtals voru þeir 1.399 sem áttu börn með 2.482 börn á heimilum sínum.

Meirihluti hópsins var með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu, eða 77%. Þar af bjuggu flestir í Miðbæ, Hlíðum, Vesturbæ og á Seltjarnarnesi (21%) og í Breiðholti (20%). Tæpur fjórðungur hópsins var búsettur á landsbyggðinni, 18% í Reykjanesbæ.

Tuttugu og þrír einstaklingar sem fengu mataraðstoð voru heimilislausir. Flestir, eða 86%, höfðu lokið grunnskólaprófi eða minni menntun. Íbúar landsbyggðar og Reykjanesbæjar höfðu síst lokið námi umfram grunnskólapróf.

Mikill meirihluti hópsins var utan vinnumarkaðar, eða 93%. Konur, þeir sem bjuggu í eigin húsnæði og þeir sem voru með barn/börn á heimili sínu voru frekar á vinnumarkaði en aðrir. Þriðjungur hópsins var með skráða örorku.

Um 78% bjuggu í leiguhúsnæði og 14% í eigin húsnæði. Fremur lítill hluti, eða 5% bjó í félagslegu húsnæði og 3% völdu valmöguleikann annað. Konur bjuggu frekar í eigin húsnæði (17%) heldur en karlar (11%). Þeir sem voru eldri, þeir sem höfðu lokið hærra menntunarstigi og þeir sem voru á vinnumarkaði bjuggu í eigin húsnæði heldur en aðrir.

Um helmingur þeirra sem fengu mataraðstoð voru ógiftir, fjórðungur í hjónabandi, 28% höfðu skilið við maka sinn og 3% voru ekkjur/ekklar. Tveir þriðju þeirrra sem voru með pólskt ríkisfang og yfir helmingur þeirra sem voru með annað erlent ríkisfang höfðu gengið í hjónaband, samanborið við 15% þeirra sem voru með íslenskt ríkisfang.

Sex af hverjum tíu voru ekki með barn/börn á heimili sínu. Konur voru frekar með börn á heimili sínu heldur en karlar (sjá mynd 4). Þeir sem höfðu lokið háskólanámi voru frekar með börn á heimili sínu og einnig þeir sem voru á vinnumarkaði.

mbl.is