Kostnaður vegna eldsumbrota í Grímsvötnum og hlaups í Múlakvísl í ár er metinn á 321,4 milljónir kr.
Í frumvarpi til fjáraukalaga kemur fram að gert sé ráð fyrir að upphæðin verði millifærð af fjárlagaliðnum ófyrirséð útgjöld. Stærstu einstöku liðirnir þar eru 82,5 milljónir til Vegagerðarinnar, 80 milljónir til Bjargráðasjóðs og 40 milljónir til Landgræðslu ríkisins.
Fram kemur í frumvarpinu að í kjölfar eldgosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi hafi verið skipaður samráðshópur ráðuneytisstjóra fimm ráðuneyta til að leggja mat á kostnað þeirra aðila sem hafi komið að aðstoð meðan á eldsumbrotunum stóð og þeirra sem komið hafa að uppbyggingu í kjölfar hamfaranna. Samráðshópurinn hefur starfað áfram eftir að eldsumbrot hófust í Grímsvötnum og hlaup varð í Múlakvísl.
Samtals er metið að kostnaður þeirra aðila sem að málum hafa komið vegna eldsumbrotanna á þessu ári sé 321,4 milljónir kr., sem fyrr segir.