Þórarinn Guðnason, gítarleikari hljómsveitarinnar Agent Fresco, er alltaf flott klæddur á sviðinu en hann spilar á sinni fjórðu Airwaves-hátíð í ár. Hann svaraði spurningum Stílsins um Airwaves.
Hvað einkennir „sviðsstílinn“ þinn?
Yfirleitt reyni ég að vera í einhverju léttu og stílhreinu. Við pöntuðum til að mynda fullt af mjög basic bolum frá American Apparell sem eru algjör snilld. Stundum hefur Sara María í Forynju samt hannað geðveik föt á okkur sem eru langt frá því að vera einföld. Sviðið er líka fullkominn staður til að vera öfgakenndur í klæðnaði.
Hvernig er stemningin fyrir Airwaves?
Get ekki beðið, mér finnst þetta alltaf vera hálfgerð árshátíð. Listamennirnir sem koma fram eru í toppformi og allt er lagt í framkomuna þannig að það er erfitt að verða fyrir vonbrigðum með íslensku böndin. Marga af mínum uppáhaldsartistum hef ég uppgötvað í gegnum Airwaves. Skipuleggjendurnir eru gífurlega góðir í að spotta flott bönd á byrjunarreit sem ná svo langt.
Hvað hefur þú spilað oft á Airwaves-hátíðinni?
Þetta er fjórða skiptið hjá Agent Fresco á Airwaves.
Telur þú Airwaves vera góðan glugga fyrir íslenska tónlistarmenn?
Algjörlega, ekki síst í ár þar sem prósentan af fólki að utan er eins rosaleg og hún er. Ég myndi segja að fyrsta stóra tækifærið okkar hafi verið á fyrstu Airwaves-hátíðinni okkar. Þá spiluðum við á NASA án þess að hafa gefið neitt út og að heyra stappaðan sal syngja með var eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað áður og mun aldrei gleyma.
Hvernig lítur Airwaves-dagskráin þín út?
Við spilum á NASA á miðvikudagskvöldinu, Listasafninu á föstudeginum, órafmagnað í Norræna húsinu á sunnudeginum og svo líklegast eina „off-venue“-tónleika á laugardeginum sem á eftir að staðfesta endanlega. Á Listasafninu og Norræna húsinu verðum við með strengjasveit og aukafólk sem mun spila með okkur.
Annars er ég lítið búinn að skipuleggja hvað ég ætla að sjá. Ég leggst í þetta á næstu dögum. Það er fátt verra en þegar maður uppgötvar að uppáhaldstónlistarmaðurinn manns hefur spilað á Airwaves áður.