Eygló Scheving, söngkona hljómsveitarinnar Vicky, er með fiðring í maganum fyrir skemmtilegustu helgi ársins að hennar mati og nýrri plötu hljómsveitarinnar sem kemur út korter í Airwaves.
Hvernig upplifir þú Airwaves?
Ég er strax komin með fiðring í magann, eða það er dálítið langt síðan, og mér finnst þetta skemmtilegasta helgi ársins. Þetta er algjört æði, mikið líf og allt öðruvísi heldur en allar aðrar helgar.
Er einhver öðruvísi stemning yfir Airwaves-giggunum heldur en öðrum giggum niðri í miðbæ?
Algjörlega, það er yfirleitt allt troðið og það eru allir þarna til þess að hlusta á tónlist. Þetta er eitt allherjar tónlistarkynsvall. Það er allt annar fílingur yfir öllu, manni líður svolítið eins og maður sé í útlöndum að spila.
Þið eruð að gefa út plötu. Hvað getur þú sagt mér um þessa aðra plötu ykkar? Var það meðvituð pæling að gefa hana út í Airwaves-vikunni?
Hún heitir Cast a Light og er tekin upp í Tankinum í Önundarfirði en hljóðblönduð og masteruð í Bandaríkjunum. Þetta hljómar allt fáránlega vel og við erum spennt fyrir að gefa hana út. Hún átti nú upphaflega að koma út í vor þannig að það var alls ekki útpælt en markmiðið var að koma henni út fyrir Airwaves. Það er skemmtilegra að hafa hana í höndunum á Airwaves heldur en eftir hátíðina.
Fyrr á árinu byrjuðuð þið með vídjóbloggið Vicky Leaks. Þar hafa þó bara birst tvær færslur, gengur þetta ekki nógu vel?
Þetta er allt í vinnslu (hlær). Það kemur nýtt Vicky Leaks bráðum, við ætlum allavega að gera eitt í kringum útgáfuna. Það er allt í fullum gangi.
Við hverju má búast frá ykkur á Airwaves?
Við ætlum að kynna nýtt efni og erum búin að æfa stíft fyrir það. Svo tökum við líka akústík gigg sem verður mjög spennandi, þetta verða einhver stórkostlegheit.