„Þetta breytti lífi mínu svo sannarlega. Ég hélt fyrst að ég væri búinn að gera einhver risastór mistök en svo reyndist raunin önnur. Ég er mjög sáttur við lífið í dag. Ég á góða vini, er í góðri vinnu og góðum skóla. Ég er búinn að hitta nunnur, klífa fjöll, fara á hestbak og láta kú skíta fyrir framan mig. Ég er búinn að upplifa ansi margt," segir Nilli glaður í bragði er hann rifjar upp árið sem liðið er síðan hann var uppgötvaður í röð á Airwaves en þá rappaði hann fyrir Monitor-myndavélarnar. „Ég var reyndar ekki á Airwaves-hátíðinni þetta kvöld heldur vorum við vinirnir að fagna honum Vilhelm, vini okkar, sem stóð sig svo vel í Óróa. Við vorum á leiðinni á Obladi Oblada þegar við rákumst á MH-inga sem stóðu í röð. Svo þegar myndavélarnar komu þá lumaði ég á rímu sem ég hafði samið í 10. bekk. Hana samdi ég þegar það vantaði atriði á árshátíð Valhúsaskóla."
Var alveg sannur aðdáandi
Í myndbandinu góða lýsir Nilli yfir aðdáun sinni á tónlistarmanninum Berndsen sem brást skjótt við og gaf Nilla bolinn sinn. „Það hefur ekkert breyst. Mér finnst Berndsen mjög skemmtilegur. Hann gerir svona öðruvísi tónlist. Hann er svolítið í þessu „80‘s" og taktarnir hans eru svo stórskemmtilegir. Nýja lagið hans, Úlfur, Úlfur, er alveg frábært lag. Það er alveg hægt að tjútta við það en mér finnst Supertime samt alltaf vera alveg málið. Mér finnst líka lagið sem hann var að gera með Þórunni Antoníu alveg stórskemmtilegt. Hún getur sungið, blessunin.
Monitor verður að sjálfsögðu á ferðinni þetta árið líka. Þó svo að fólk kunni orðið að nýta sér raðamyndavélarnar frá Símanum þá má samt búast við því að einhverjar raðir myndist og því er það bara spurningin hvort einhver verði uppgötvaður þetta árið. Ef það gerist þá lumar Nilli á góðum ráðum í það minnsta. „Verið þið sjálf, fyrst og fremst, því það er náttúrlega stórskemmtilegast. Svo er tilvalið að vera ófeiminn við að taka því sem þú færð upp í hendurnar því að mér fannst þetta alveg geggjað sem gerðist. Þetta er svo stórskemmtileg vinna."