Írska söngkonan Sinéad O'Connor hélt frábæra tónleika í Fríkirkjunni í gærkvöldi. Tónleikarnir áttu að standa í eina klukkustund, en hún stóð á sviðinu í tvo tíma, tók lög af óútkominni plötu, sem væntanleg er í febrúar, og leitaði einnig í fortíðina, tók meira að segja lagið Nothing Compares to U eftir Prince, sem trónaði á efstu sætum vinsældalista um allan heim þegar hún sló fyrst í gegn fyrir alvöru árið 1990.
Úrhellið í gærkvöldi var slíkt að dyr Fríkirkjunnar voru opnaðar áður en byrja átti að hleypa inn til að þeir, sem vildu tryggja sér góð sæti á O‘Connor, yrðu ekki holdvotir. Meira að segja gekk á með þrumum og eldingum, kannski tákn um að ekki ríkti alls staðar ánægja með að írska söngkonan væri í fyrsta skipti á ferlinum að koma fram í kirkju.
O‘Connor var sposk á svip þegar hún stillti sér upp fyrir framan altarið í Fríkirkjunni og sagði að veru sinni þarna yrði ekki alls staðar tekið með velþóknun. Trú og trúarbrögð hafa verið snar þáttur í tónlist og textum O‘Connor og ekki er langt síðan hún gaf út tvöfalda plötu, sem ber einfaldlega nafnið Theology eða guðfræði.
Tónleikarnir byrjuðu einmitt á lagi af þeirri plötu og náði O‘Connor áheyrendum strax á sitt vald. Rödd hennar er ótrúlegt hljóðfæri og hefur ekki mikið látið á sjá á þeim rúmlega tveimur áratugum, sem liðnir eru frá því að ferill hennar hófst. Með hljómborðsleikara og gítarleikara sér til fulltingis tókst henni að skapa rafmagnaða en um leið persónulega stemmingu í kirkjunni. Rödd hennar var á víxl viðkvæm og brothætt, kröftug og sterk.
Fáir tónlistarmenn hafa fengið aðra eins útreið í fjölmiðlum og O‘Connor. Ástæðan er meðal annars gagnrýni hennar á katólsku kirkjuna, sem hefur verið hvöss og beitt, og hún hefur notað ýmis tækifæri til að koma henni á framfæri. Mest varð írafárið þegar hún kom fram í bandaríska sjónvarpsþættinum Saturday Night Live árið 1992. Þar dró hún í miðju lagi þar sem hún söng um misnotkun barna fram mynd af Jóhannesi Páli páfa II. og reif hana í tætlur. Síðar baðst hún afsökunar á athæfinu.
Eins og plötur O‘Connor bera með sér er hún mjög trúuð og skýrir það þann kraft, sem er í gagnrýni hennar á katólsku kirkjunna. Í texta, sem fylgir reggaeplötunni Throw Down Your Arms frá 2005, talar hún um að „Guð og trúarbrögð séu tveir mjög ólíkir hlutir“. Hún á ekkert sökótt við Guð, heldur þá, sem segjast tala í nafni hans.
Barátta O‘Connor er þó ekki aðeins sprottin úr beiskju. Þegar hún söng lagið The Emperor‘s New Clothes af plötunni I do not want what I haven‘t got, sem skaut henni á stjörnuhimininn 1990, horfði hún stríðnislega á altarið og sagði að þetta væri rétti staðurinn til að syngja um nýju fötin keisarans. Var þeim orðum ábyggilega frekar beint til kirkjulegra yfirvalda en himnaföðurins.
Árið 1999 var O‘Connor vígð til prests. Þar átti í hlut biskup trúarhreyfingar, sem kennir sig við katólsku, en hefur slitið sig frá katólsku kirkjunni og páfa. Eins og kunnugt er leyfir katólska kirkjan ekki að konur gegni prestsstörfum og viðurkennir því ekki vígslu O‘Connor. Hún var þó ekki í hlutverki prests í tónlistarmessu sinni í Fríkirkjunni í gær.
O‘Connor var greinilega í essinu sínu þegar hún tróð upp í gær. Hún var ræðin, sló á létta strengi og lék á alls oddi. Stundum var eins og hún sæti með vinum sínum í eldhúsinu, en stæði ekki fyrir framan áhorfendur, sem hún hefði aldrei hitt fyrr á ævinni. Ást hennar á börnum sínum fór ekki á milli mála og fólk slær alltaf keilur þegar það hefur húmor fyrir sjálfu sér. „Faðir minn segir að hann hafi alltaf þurft að fara með mig tvisvar á alla staði, í seinna skiptið til að biðjast afsökunar,“ sagði hún og uppskar hlátur.
O‘Connor hefur verið sögð brjáluð, galin og geggjuð. Einver allt önnur O‘Connor steig á svið í Fríkirkjunni í gær. Hún var hlý, klár, greind og fyndin, beinskeitt og hvöss, persónuleg og brothætt, sterk og kröftug, jafnvel allt í sama laginu. Á köflum var flutningurinn svo magnaður að hann framkallaði gæsahúð. Sinéad O‘Connor er ein magnaðasta söngkona okkar tíma og hún sýndi það á ógleymanlegum tveggja tíma tónleikum í Fríkirkjunni í gærkvöldi.
Sinéad O‘Connor
Fríkirkjunni, föstudagskvöld 14. Október
Hluti af Iceland Airwaves