„Tímalengd samninga er stutt, endurnýjunartíminn mjög stuttur og líkur á endurnýjun óvissar. Að öllu virtu eru þessi atriði til þess fallin að auka á óvissu frekar en hitt,“ sagði Axel Hall, lektor við Háskólann í Reykjavík, meðal annars í erindi á aðalfundi LÍÚ í gær.
Axel var formaður sérfræðinganefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði í fyrravetur til að fjalla um hagræn áhrif frumvarps um fiskveiðistjórnun.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir samningum til 15 ára og möguleikum á framlengingu til átta ára. „Kerfið sem hér er lagt til lýkur á 23. ári án fyrirheits og í því er mörgum spurningum ósvarað, til dæmis hvort markmið stjórnvalda sé framhald núverandi kerfis eða hvort í þessu frumvarpi sé að finna sólarlagsákvæði þess,“ sagði Axel.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir, að megininntak þess sem fræðimenn hefðu skrifað um samningaleið í sjávarútvegi fjallaði um samfellu milli samningstíma og endurnýjunar. Slíka samfellu væri ekki að finna í frumvarpinu. Axel sagði að umræða um samningsleið væri orðin um tíu ára gömul og sjónarmið sem skiptu máli fyrir nýtingarrétt í samningskerfi hefðu rækilega verið reifuð með stefnumótun sem stjórnvöld hefðu unnið að. Frumvarpið viki frá þessum sjónarmiðum í veigamiklum atriðum.