Manúela Ósk Harðardóttir hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar DV um skilnaðarmál hennar og Grétars Rafns Steinssonar. Í yfirlýsingu frá Manúelu segir:
„Undanfarna daga hefur verið fjallað með óvægnum hætti um einkalíf Manuelu í DV og á vefsvæðinu dv.is., þar sem fluttar hafa verið fréttir af skilnaði hennar og Grétars Rafns Steinssonar. Samhliða skapaði DV umræðugrundvöll um einkamálefni Manuelu í athugasemdakerfi á vefsvæðinu dv.is, en þar hefur verið vegið harkalega að æru og friðhelgi einkalífs Manuelu.
Fréttaflutningur DV hefur verið einhliða og þar hefur ítrekað verið hallað réttu máli en augljóst er að heimildarmaður blaðsins er Grétar Rafn eða einhver honum tengdur. Því til staðfestingar má vísa til þess að DV hefur undir höndum hluta gagna úr dómsmáli milli Manuelu og Grétars, en gögnin geta ekki verið komin til DV frá neinum öðrum en Grétari. Þessum gögnum virðist Grétar Rafn hafa lekið til DV þrátt fyrir að vera bundinn trúnaði um allt það sem tengist dómsmálinu, en krafa þess efnis var höfð uppi af Grétari sjálfum og samþykkt af dómara málsins og málsaðilum við fyrirtöku málsins í London um miðjan maí 2011.
Við vinnslu framangreindra frétta bar DV ekki gæfu til þess að hafa samband við Manuelu og gefa henni kost á því að koma á framfæri athugasemdum vegna fréttanna eins og DV bar að gera, en skilnaðarmál Manuelu og Grétars var meðal annars aðalfrétt DV, miðvikudaginn 30. nóvember sl. Að gefnu tilefni vill Manuela því koma eftirfarandi á framfæri:
Dómurinn sem gekk í Bretlandi sl. föstudag er sanngjarn, en þar voru kröfur Manuelu teknar til greina í öllum aðalatriðum. Áður hafði Manuela gert sitt ýtrasta til þess að ná samkomulagi við Grétar utan réttar bæði með og án aðstoðar íslenskra og breskra lögmanna en án árangurs. Niðurstaða dómsmálsins er að öllu leyti í samræmi við gildandi lög og hefðir í breskum rétti en óumdeilt er að lögsaga í málinu var hjá breskum dómstólum.
Því er ranglega haldið fram af DV að skýrsla sem unnin var af breskum einkaspæjurunum, sem Grétar leigði til þess að fylgjast með ferðum Manuelu dagana 25. ágúst til 9. september 2011, hafi haft einhverja þýðingu um niðurstöðu dómsmálsins. Þvert á móti þá tiltók dómari málsins það sérstaklega við dómsuppkvaðningu í London, föstudaginn 25. nóvember sl., að skýrslan hafi verið þýðingarlaus og sóun á bæði tíma og fjármunum, en Grétar mun hafa greitt háar fjárhæðir fyrir skýrsluna. Hins vegar er ljóst að með því að óska eftir og greiða fyrir þjónustu einkaspæjara, sem höfðu Manuelu og nánustu fjölskyldu hennar undir eftirliti allan sólarhringinn, braut Grétar með freklegum hætti gegn friðhelgi einkalífs Manuelu. Að vel athugðu máli hefur Manuela hins vegar ákveðið að láta kyrrt liggja vegna þessara réttarbrota Grétars og mun hvorki leita réttar síns hjá þar til bærum yfirvöldum á Íslandi eða í Bretlandi. Er það gert með hagsmuni barna þeirra að leiðarljósi.
Að öðru leyti en fram kemur í þessari yfirlýsingu mun Manuela ekki tjá sig frekar um framangreind einkamálefni sín og biður fjölmiðla og að sýna henni og fjölskyldu hennar þá tillitssemi að gera slíkt hið sama.“
Reykjavík, 1. desember 2011,
f.h. Manuelu Óskar Harðardóttur,
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.