„Það liggur á því að skýra sjávarútvegsmálin og koma fram með frumvarp,“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og formaður ráðherranefndar, sem hefur það verkefni að skoða vinnuskjöl sjávarútvegsráðherra um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.
Með Guðbjarti í nefndinni er Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra. Guðbjartur vill ekki nefna tímasetningu um hvenær þau muni skila af sér. „Þetta er stórt mál, sem þarf að ná sátt um með einhverjum hætti,“ segir hann.
„Okkur hefur verið falið að greina og kortleggja helstu álitamálin, hvað flokkarnir eru sammála um og hvað þarf að skoða betur og setja þá í farveg. Við munum fara yfir frumvarpið sem lagt var fram í vor, drögin eða kynningareintakið sem sett var inn á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ýmis önnur gögn sem hafa bæst við síðan sáttanefndin svokallaða lauk störfum,“ segir Guðbjartur, en hann var formaður þeirrar nefndar.
Spurður hvort vinnunni ljúki með því að þau skili af sér unnu frumvarpi segir Guðbjartur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, að það þurfi ekki endilega að verða svo.