Engar líkur á að gripið verði til refsiaðgerða

Tómas H. Heiðar er aðalsamningamaður Íslands í viðræðum um makrílveiðar.
Tómas H. Heiðar er aðalsamningamaður Íslands í viðræðum um makrílveiðar. mbl.is/Golli

Tóm­as H. Heiðar, aðal­samn­ingamaður Íslands í viðræðum um mak­ríl­veiðar, seg­ir að fram­kvæmda­stjórn  ESB ætti frem­ur að verja kröft­um sín­um í að stuðla að sam­komu­lagi um stjórn mak­ríl­veiðanna en ýja að inn­flutn­ings­banni og öðrum viðskiptaaðgerðum sem fari í bága við alþjóðlega viðskipta­samn­inga.

Þetta kem­ur fram í svari Tóm­as­ar við þeirri til­lögu fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins að samþykkt verði reglu­gerð sem geri ESB kleift að beita þjóðir refsiaðgerðum sem stunda ósjálf­bær­ar fisk­veiðar og standa utan ESB. M.a. er rætt um inn­flutn­ings­bann.

„Ég  tel að fram­kvæmda­stjórn ESB ætti frem­ur að verja kröft­um sín­um í að stuðla að sam­komu­lagi um stjórn mak­ríl­veiðanna en ýja að inn­flutn­ings­banni og öðrum viðskiptaaðgerðum sem fara í bága við alþjóðlega viðskipta­samn­inga.  Á  fundi strand­ríkj­anna fjög­urra í Clonakilty í síðustu viku lögðu ESB og Nor­eg­ur fram til­lögu um skipt­ingu mak­ríl­kvóta milli aðila sem fól í sér stórt skref aft­ur á bak frá und­an­förn­um fund­um. Til­lag­an olli okk­ur mikl­um von­brigðum, enda höf­um við  lagt ríka áherslu á að ná sam­komu­lagi til að tryggja sjálf­bær­ar mak­ríl­veiðar og koma í veg fyr­ir frek­ari  of­veiði úr stofn­in­um sem all­ir aðilar bera sam­eig­in­lega ábyrgð á,“ seg­ir Tóm­as.

Hann seg­ir að sam­kvæmt lög­um nr.  22/​1998,  um  veiðar  og  vinnslu  er­lendra  skipa í fisk­veiðiland­helgi  Íslands, sé er­lend­um  skip­um,  sem  stundi veiðar úr sam­eig­in­leg­um fiski­stofn­um sem ekki sé sam­komu­lag um stjórn­un á, óheim­ilt að landa  slík­um afla í ís­lensk­um höfn­um. Er­lend­um fiski­skip­um sé sam­kvæmt því  óheim­ilt  að landa mak­ríl í ís­lensk­um höfn­um. Slíkt lönd­un­ar­bann eigi sér stoð  í  EES-samn­ingn­um og Nor­eg­ur  hafi  sett  sams kon­ar bann. Íslensk stjórn­völd  geri  að sjálf­sögðu  ekki  at­huga­semd við að sams kon­ar regl­ur gildi  um  lönd­un ís­lenskra fiski­skipa í er­lend­um höfn­um og gildi um lönd­un er­lendra  fiski­skipa  hér, enda sé um að ræða afla úr sam­eig­in­leg­um stofn­um sem  ekki  sé  sam­komu­lag um stjórn­un á. Í þessu sam­bandi sé raun­ar vert að hafa í huga  að  mak­ríl­veiðar  ís­lenskra  skipa  fari ein­göngu fram inn­an ís­lensku  efna­hagslög­sög­unn­ar  og öll­um afla hafi verið landað í ís­lensk­um höfn­um og hann unn­inn hér á landi.

„Hins veg­ar er al­veg ljóst að inn­flutn­ings­bann og aðrar slík­ar viðskiptaaðgerðir eiga sér enga stoð í og brjóta í bága við EES-samn­ing­inn, EFTA-samn­ing­inn og WTO-samn­ing­inn. Ég tel því eng­ar lík­ur á að gripið verði til slíkra aðgerða.

Eng­in  ákvörðun hef­ur verið tek­in um fram­hald mak­rílviðræðna og að óbreyttu verður  hlut­deild  Íslands  í  veiðunum  á  næsta ári áfram um 16%. Ekki er úti­lokað  að gerð verði úr­slita­tilraun til að ná sam­komu­lagi en ljóst er að ESB  og  Nor­eg­ur  þurfa  að end­ur­skoða  af­stöðu  sína vel og vand­lega eigi ein­hver von að vera um ár­ang­ur á slík­um loka­fundi,“ seg­ir Tóm­as.

Hægt verði að beita refsiaðgerðum

mbl.is

Bloggað um frétt­ina