„Við höfum ekkert að óttast ef farið er að alþjóðlegum skuldbindingum, hvort sem það eru samningar sem þeir eru aðilar að eða samningar við okkur.“
Þetta segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, í Morgunblaðinu í dag um undirbúning Evrópusambandsins fyrir refsiaðgerðir vegna ósjálfbærra fiskveiða.
Ekki er fyllilega ljóst hvaða reglur framkvæmdastjórn ESB vill fá samþykktar en þær geta meðal annars lotið að takmörkun á innflutningi á fiski.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að makríll sé ekki nefndur sérstaklega en stofninn er ofveiddur vegna þess að ekki hefur náðst samkomulag um skiptingu veiðanna eftir að flökkustofninn fór að ganga í miklu magni inn í íslenska fiskveiðilögsögu og íslensk skip hófu stórfelldar veiðar. Útflutningsverðmæti makríls hefur stóraukist síðustu ár og er áætlað að það verði 25-30 milljarðar í ár. 2