Fá frest fram í janúar

Maria Damanaki
Maria Damanaki Reuters

Íslend­ing­ar og Fær­ey­ing­ar hafa frest þar til í næsta mánuði til að kom­ast að sam­komu­lagi um stjórn mak­ríl­veiðanna. Að öðrum kosti mun Evr­ópu­sam­bandið beita lönd­in refsiaðgerðum, seg­ir Maria Dam­anaki, sem fer með sjáv­ar­út­vegs­mál hjá fram­kvæmda­stjórn ESB.

Sam­kvæmt frétt AFP frétta­stof­unn­ar verður hald­inn samn­inga­fund­ur um málið í næsta mánuði.

Tóm­as H. Heiðar, aðal­samn­ingamaður Íslands í viðræðum um mak­ríl­veiðar, sagði fyrr í vik­unni í sam­tali við mbl.is að fram­kvæmda­stjórn  ESB ætti frem­ur að verja kröft­um sín­um í að stuðla að sam­komu­lagi um stjórn mak­ríl­veiðanna en ýja að inn­flutn­ings­banni og öðrum viðskiptaaðgerðum sem fari í bága við alþjóðlega viðskipta­samn­inga.

Þetta kem­ur fram í svari Tóm­as­ar við þeirri til­lögu fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins að samþykkt verði reglu­gerð sem geri ESB kleift að beita þjóðir refsiaðgerðum sem stunda ósjálf­bær­ar fisk­veiðar og standa utan ESB. M.a. er rætt um inn­flutn­ings­bann.

Í til­lögu fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar eru lönd­in tvö, Ísland og Fær­eyj­ar, ekki nefnd á nafn, sam­kvæmt frétt AFP sem hef­ur til­lög­una und­ir hönd­um.

Sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Skot­lands, Rich­ard Lochhead, sem leiðir samn­inga­nefnd Bret­lands, seg­ir að það að beita ríki refsiaðgerðum sé áhrifa­mik­il leið en skosk stjórn­völd nefna bæði Ísland og Fær­eyj­ar á nafn þegar rætt er um slík­ar refsiaðgerðir.

Auk Breta styðja Írar, Frakk­ar, Þjóðverj­ar og Dan­ir til­lögu Dam­anaki.

Eins og greint hef­ur verið frá á mbl.is náðist ekki sam­komu­lag fyr­ir síðustu helgi á milli ESB, Nor­egs, Íslands og Fær­eyja um skipt­ingu mak­ríl­stofns­ins á fundi sem fram fór í Clonakilty á Írlandi síðastliðinn föstu­dag.

mbl.is