Eitt síðasta verk Jóns Bjarnasonar, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var að gefa út nýja reglugerð um makrílveiðar á Íslandsmiðum.
Þar segir í fyrstu grein, að heimilt sé öllum fiskiskipum, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands, að stunda veiðar á makríl hér á heimamiðum og á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar NEAFC, utan lögsögu ríkja, að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu.
Fari heildarafli íslenskra skipa í makríl á árinu 2012 yfir 145.227 lestir, eða í 20.000 lestir á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar NEAFC, utan lögsögu ríkja, ákveði ráðherra hvort veiðar á makríl skuli bannaðar eða takmarkaðar með einhverjum hætti.
Jón hefur því ákveðið leyfilegt byrjunarheildaraflamark á árinu 2012 á síðasta degi sínum á ráðherrastóli, en makríldeilan hefur verið viðkvæmt mál á milli Íslands og annarra ríkja, meðal annars aðildarríkja Evrópusambandsins.
Jón er sem kunnugt er andvígur umsókn og inngöngu Íslands í ESB. Reglugerðina, sem undirrituð var í gær og hefur verið birt á vef Stjórnartíðinda, er að finna hér.