„Við höfum langt því frá sett okkur upp á móti öllum tillögum,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, spurður út í fullyrðingar Ólínu Þorvarðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, þess efnis að hagsmunaaðilar í sjávarútveginum hafi sett sig upp á móti öllum tillögum sem fram hafa komið um breytingar á fiskveiðistjórnun.
Ummælin komu fram í ræðu Ólínu í pallborðsumræðum um stefnu í sjávarútvegi sem fram fóru í Iðnó síðastliðinn miðvikudag og greint var frá þeim í blaðinu í gær.
„Við höfum hinsvegar barist mjög hart gegn þeim tillögum sem Samfylkingin var með um fyrningarleið, enda var ljóst hvað hún þýddi. Við höfum líka barist mjög hart gegn þessu frumvarpi sem var lagt fram í fyrravor, vegna þess hvaða afleiðingar það hefði haft ef það hefði orðið að lögum. Utanríkisráðherrann hefur sjálfur líkt því við bílslys, en það að við höfum sett okkur upp á móti öllum tillögum, það er rangt,“ segir Friðrik
Hann bætir við að engin sanngirni sé fólgin í því að halda því fram að hún [Ólína] hafi keyrt á áróðursvegg eins og hún sagði sjálf á fundinum. „Frá því að endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða fór af stað þá höfum við óskað eftir því að fá að koma að þeirri vinnu eftir að sáttanefndin lauk störfum haustið 2010 en þá lýsti Ólína því yfir að nú væri samráðinu lokið,“ segir Friðrik.