Örlög málsins ráðast í kvöld

Þingmenn á Alþingi í dag.
Þingmenn á Alþingi í dag. mbl.is/Eggert

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, sagði á Alþingi í dag að ef dagskrártillaga um að taka þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar af dagskrá verði ekki samþykkt á Alþingi í kvöld sé það óumflýjanleg niðurstaða að málið gegn Geir H. Haarde fyrir landsdómi muni lyppast niður.

„Það mun enginn saksóknari sitja undir því í marga klukkutíma að Alþingi er að svipta hann umboði. Það mun enginn saksóknari sitja undir því að vita ekki hvað Alþingi ætlar að gera, að það sé einhver vafi í málinu. Það mun enginn landsdómur sætta sig við það að það sé enginn saksóknari til staðar. Það mun enginn landsdómur sætta sig við að vita ekki vilja Alþingis í þessu máli, að menn ætli að hugsa sig um aftur, taka stöðuna, ræða málin og fara yfir þetta. Í raun og veru er það mitt mat að atkvæðagreiðslan í kvöld snýst í raun og veru um það hvort við ætlum að fella málið niður eða ekki,“ sagði Björn Valur.

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að Björn Valur virtist telja að með ákæru Alþingis á hendur ráðherrum eigi hið stóra uppgjör við hrunið sér stað. Þess vegna hafi hann m.a. sagt, að verði ráðherra ekki ákærður jafngildi það því, að rannsóknarskýrsla Alþingis fari í tætarann. Þessi ummæli væru fráleit vegna þess að Alþingi hefði tekið niðurstöður skýrslunnar mjög alvarlega.

Björn Valur sagði að þingmannanefnd Alþingis hefði gert tillögur um málshöfðun á grundvelli rannsóknarskýrslu Alþingis. Alþingi gæti ekki leyft sér, að komast undan því uppgjöri, sem það ákvað sjálft haustið 2008 að ætti að fara fram. Ef þingmenn tækju nú þá ákvörðun að vísa frá sér allri ábyrgð þá jafngilti það því, að það pólitíska uppgjör, sem til stóð að fara í gagnvart Alþingi, störfum þess, ráðherraábyrgð og ábyrgð embættismanna yrði sett í tætarann.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að engin rökstudd ástæða væri til að taka tillögu Bjarna Benediktssonar til umræðu á þinginu. Sjálfstæðisflokkurinn væri að nota Alþingi sem fótaþurrku og málflutningur í þessu máli lýsti fyrirlitningu sjálfstæðismanna á lýðræði og réttarríkinu.

Nú væri verið að reyna að fría stjórnmálamenn ábyrgð á gjörðum þeirra þótt þingið hefði greitt atkvæði um að ákæra Geir H. Haarde. Ekkert nýtt hefði komið fram, sem gæfi tilefni til þess að ákæran verði afturkölluð.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði hvort Þór liti svo á, að ekki væri aðeins verið að rétta yfir þingmönnum Sjálfstæðisflokksins heldur einnig hugmyndafræði flokksins.

Þór svaraði, að sú hugmyndafræði væri komin á öskuhaug sögunnar sem samfélagseyðileggjandi fyrirbæri. Ekki væri verið að rétta yfir þeirri hugmyndafræði heldur einum manni, sem ekki hefði dottið niður af himnum heldur verið einn helsti stefnumótandi flokksins á sviði efnahagsmála.

„Það má segja að réttarhöldin yfir honum séu einfaldlega dæmi um það sem gerist, þegar menn fara af stað og trúa á blinda hugmyndafræði af slíku offorsi að samfélagið allt líður fyrir,“ sagði Þór. 

mbl.is