Aðdáendur Houston bíða frétta

Aðdáendur bandarísku söngkonunnar Whitney Houston hafa safnast saman fyrir utan hótelið í Los Angeles þar sem söngkonan fannst látin í gær. Bíða þeir frekari fregna af sviplegu fráfalli söngkonunnar.

„Það er hrikalegt að hún sé dáin,“ segir Monet Mitchell, aðdáandi söngkonunnar. „Hún var ein besta söngkona allra tíma. Ég hef hlustað á tónlist hennar frá því að ég var lítil stelpa. Ég bara trúi þessu ekki. Ég sendi fjölskyldu hennar samúðarkveðjur.“

Lík Houston var flutt frá Beverly Hilton-hótelinu í morgun en hún átti að mæta í Grammy-veislu síðdegis en tónlistarverðlaunin verða afhent í kvöld.

Houston hefur hlotið mörg verðlaun fyrir tónlist sína í gegnum tíðina. Síðustu árin glímdi hún við áfengis- og fíkniefnavanda. Hún fór oft í meðferð vegna fíknar sinnar og talaði opinskátt um vandamál sín.

Lögreglan rannsakar enn dánarorsök söngkonunnar.

Whitney Houston.
Whitney Houston. Reuterse
mbl.is