Minn stærsti djöfull er ég sjálf

Whitney Houston árið 1998.
Whitney Houston árið 1998. AP

Lögreglan hefur í allan dag leitað skýringa á dauða poppsöngkonunnar Whitney Houston. Á meðan undirbýr tónlistarheimurinn árshátíð sína, sjálfa Grammy-verðlaunahátíðina. „Minn stærsti djöfull er ég sjálf,“ sagði Houston í viðtali árið 2002.

Lík Houston var flutt af hótelinu þar sem hún lést í líkhúsið í Los Angeles snemma í morgun, sunnudag, aðeins fáeinum klukkustundum eftir að hún fannst látin í baðkari á hótelherbergi. Ekki er ljóst hvenær líkið verður krufið en nú er beðið niðurstaðna úr blóðsýnum sem geta varpað ljósi á það hvort söngkonan, sem hefur glímt við áfengis-og fíkniefnavanda, var undir áhrifum er hún lést.

Meðan á öllu þessu stóð var dóttir Houston, Bobbi Kristina, flutt með sjúkrabíl á spítala en hún er sögð hafa orðið fyrir miklu áfalli er hún heyrði af sviplegu andláti móður sinnar. Bobbi Kristina er aðeins 18 ára gömul.

Á Grammy-hátíðinni í kvöld verður söngkonunnar minnst sérstaklega en hún átti sjálf að vera viðstödd hátíðina.

Houston vann sex Grammy-verðlaun á ferli sínum og átti að koma fram í veislu á vegum hátíðarhaldara í kvöld.

Veislan sem um ræðir er haldin af Clive Davis, góðum vini Houston. Þrátt fyrir dauða vinkonu sinnar hélt hann veisluna á sama hóteli og Houston lést í gær. Gestir höfðu mínútu þögn til að minnast söngkonunnar.

Houston æfði á fimmtudag atriðið sem hún ætlaði að flytja í veislunni. Heimildarmaður segir að við það tækifæri hafi Houston virst mjög stressuð, svitnað óhóflega og lyktað af áfengi.

Lífsglöð og falleg stúlka

Söngkonan átti gríðarlegum vinsældum að fagna á níunda og tíunda áratugnum. Hún seldi plötur í bílförmum og átti vinsælustu lög heims í mörgum löndum samtímis. Houston söng með gospel-kór og sá bakgrunnur nýttist henni vel. Hún átti tvö átrúnaðargoð, guðmóður sína Arethu Franklin og frænku sína Dionne Warwick.

Whitney Houston lék í nokkrum kvikmyndum, m.a. The Bodyguard og Waiting to Exhale.

Houston þótti einstaklega aðlaðandi, lífleg og fjörug. Af henni geislaði lífsgleðin er hún var upp á sitt besta. Hún hafði mikil áhrif á söngkonur sem síðar urðu heimsfrægar s.s. Mariuh Carey og Christinu Aguilera.

En svo tók að halla undan fæti. Hún ánetjaðist áfengi og fíkniefnum og ímynd hennar, hin fullkomna og fjörlega stúlka, molnaði. Hún varð óvinsæl í tónlistarbransanum, mætti ekki á réttum tíma á uppákomur eða í hljóðver og svo framvegis.

Seinna játaði Houston að hún notaði kókaín, reykti gras og tæki ótæpilega mikið af lyfseðilsskyldum lyfjum.

„Minn stærsti djöfull er ég sjálf. Ég er annaðhvort minn helsti stuðningsmaður eða minn versti óvinur,“ sagði Houston í frægu viðtali við Diane Sawyer árið 2002.

Ferill Houston byrjaði þegar hún var kornung. Þegar hún var unglingur söng hún bakraddir hjá Chaka Khan, Jermaine Jackson og fleirum. Fyrsta sólóplatan kom út árið 1985 og sló rækilega í gegn.

Fór tvisvar í meðferð

Hjónaband hennar og Bobbys Browns var stormasamt. Þau þóttu ólík og fólk hélt því fram að Brown hefði slæm áhrif á góðu stúlkuna, Houston. Hún játaði síðar í viðtali við Opruh Winfrey að hún hefði notað fíkniefni áður en hún kynntist Brown.

Houston fór tvisvar í meðferð áður en hún sagði við Winfrey árið 2009 að hún væri algerlega laus við fíkniefnin úr lífi sínu. En eftir það átti hún samt erfitt með að mæta á réttum tíma í upptökur og á tónleika og var fyrir skömmu handtekin á flugvelli með fíkniefni á sér.

Whitney Houston var 48 ára er hún lést.

Flaggað í hálfa stöng við listaskóla í Bandaríkjunum í gær.
Flaggað í hálfa stöng við listaskóla í Bandaríkjunum í gær. AP
Mæðgurnar Whitney Houston og Bobbi Kristina Brown.
Mæðgurnar Whitney Houston og Bobbi Kristina Brown. AP
mbl.is