„Óbærilegt álag“

AP

Andlát bandarísku söngkonunnar Whitney Houston hafði áhrif á alla heimsbyggðina. Meðal þeirra sem tjáðu sig um það var Simon Cowell við CNN-fréttastofuna. Hann sagði álagið óbærilegt á stjörnur sem Houston, og að hún hefði kynnst röngum mönnum með þeim afleiðingum sem fylgdu.

Tekið var viðtal við Cowell í nótt um Houston. Hann bar hana saman við Michael Jackson og frægð hans. Ekki væri hægt að ímynda sér hvernig væri að lifa lífi sem þeirra, í nálarauga fjölmiðla og aðdáenda.

Cowell sagði að Houston hefði viljað fara út, vera á meðal manna og sýna að hún gæti sungið. Hann benti einnig á að ef illa færi þá væri fjölmiðlum kennt um. Það væri ekki réttlátt því að fjölmiðlar skiptu nánast öllu máli við að gara viðkomandi frægan.

Þá sagði Cowell að illa gæti farið fyrir öllum stjörnum þegar þær hittu rangt fólk sem afvegaleiddi þær. Cowell sagði það ekki beint en ýjaði að því að þar ætti hann við Bobby Brown.

Cowell sagðist vona að fólk lærði af þessu, að hæfileikum ætti ekki, og mætti ekki, kasta svona á glæ.

Reuters
mbl.is