Fjölskyldu Whitney Houston hefur verið greint frá því að söngkonan drukknaði ekki heldur virðist sem hún hafi látist af völdum lyfja og áfengis.
Að sögn vefsíðunnar tmz.com var fjölskyldunni sagt að það hefði ekki verið nægilega mikið vatn í lungum Houston til að hægt væri að fullyrða að hún hefði drukknað. Var henni sagt að söngkonan gæti hafa dáið áður en höfuð hennar fór í kaf. Líkleg dánarorsök sé samblanda af ýmsum lyfjum, þ. á m. Xanax, og áfengi.
Þá segir á síðunni að það hafi ekki verið lífvörður Houston sem fann hana látna í baðkari hótelherbergisins á Beverly Hilton hótelinu, eins og áður hafði verið greint frá, heldur hafi það í raun verið frænka hennar, Mary Jones. Hún hafi fundið til föt sem söngkonan átti að klæðast um kvöldið og því næst brugðið sér frá í hálftíma. Þegar hún kom til baka fór hún að undrast að Houston væri enn inni á baðherbergi. Hún gekk inn, sá Houston lífvana í baðkarinu og, eftir að hafa lagt hana á gólfið, hafið umsvifalaust að reyna að endurlífga hana.