Tónlist Houston rýkur út

Sala á tónlist Whitney Houston hefur stóraukist eftir sviplegt fráfall söngkonunnar um helgina.

Eitt þekktasta lag hennar „I Will Always Love You“ er það lag sem hefur selst best í dag á iTunes og hljómplata með hennar helstu lögum er í öðru sæti listans yfir mest seldu plöturnar. Einungis plata bresku söngkonunnar Adele hefur selst betur.

Á lista yfir 200 mest seldu lögin á iTunes er að finna 42 lög Houston í dag. Á vef Amazon á Houston tíu af þeim tuttugu sem hafa selst best.

Samkvæmt upplýsingum Billboard er talið að 50 þúsund eintök af plötum Houston hafi selst frá því andlát hennar var tilkynnt á laugardagskvöldið.

Houston fannst látin á herbergi sínu á Beverly Hilton-hótelinu í Los Angeles síðdegis á laugardag.

Alls hafa hljómplötur Whitney Houston selst í meira en 170 milljón eintökum í heiminum en vinir hennar hafa minnst hennar undanfarna daga.

mbl.is