Lík Whitney Houston hefur verið flutt til New Jersey þar sem söngkonan fæddist og ólst upp. Ekið var með það í lögreglufylgd á útfararheimili í Newark í gærkvöldi en þar höfðu nokkrir tugir aðdáenda söngkonunnar safnast saman.
Inni beið móðir Houston, Cissy, en fjölskyldan stendur nú í ströngu að skipuleggja útförina. Nýjustu fregnir herma að kistulagning verð á fimmtudag og á föstudaginn verði jarðarförin haldin á stórum leikvangi sem tekur 18 þúsund manns í sæti. AFP-fréttaveitan segir hinsvegar að jarðarförin fari fram á laugardaginn í kirkju í Newark, þar sem Houston söng gjarnan þegar hún var lítil stúlka.
Enn er ekki vitað með vissu hvað olli því að Houston lést á hótelherbergi í Beverly Hills á laugardaginn og er talið nær öruggt að dánarorsökin muni ekki liggja fyrir fyrr en eftir að Houston hefur verið jörðuð.