Móðir Whitney Houston, Cissy Houston, mætti niðurbrotin í jarðarför dóttur sinnar í Newark á laugardag en ekki tók betra við að athöfninni lokinni þegar í ljós kom að dótturdóttirin, Bobbi Kristina Brown, var horfin. Bobbi Kristina var greinilega í miklu uppnámi á meðan á jarðarförinni stóð en þegar fjölskyldan kom saman í kjölfarið var dóttir söngkonunnar hvergi sýnileg. Hún fannst síðar eftir langa leit á hótelherbergi í annarlegu ástandi.
Bobbi Kristina, sem er 18 ára, hefur átt við vímuefnavandamál að stríða síðustu árin og í framhaldi af sviplegu fráfalli móður hennar vill fjölskyldan að hún fari í meðferð sem allra fyrst. Þegar uppgötvaðist á laugardag að hún var ekki lengur á meðal kirkjugesta hófst mikil leit að henni. Amma hennar Cissy brotnaði saman enda hefur hún haft gífurlegar áhyggjur af barnabarninu, er haft eftir heimildamanni vefmiðilsins Daily Beast.
Fjölskyldan hringdi án afláts í farsíma stúlkunnar en fékk ekkert svar. Fannst Bobbi Kristina loks eftir margra klukkustunda leit á nærliggjandi hóteli í annarlegu ástandi. Samkvæmt heimildamanni Daily Beast reyndi fjölskylda Whitney Houston allt sem í hennar valdi stóð til að frelsa söngstjörnuna úr klóm fíkniefna. Nú óttast hún að dóttirin hljóti sömu örlög og móðirin. Amma hennar er að sögn uppgefin á líkama og sál en ætlar þó ekki að gefast upp og hefur einsett sér að bjarga dótturdóttur sinni.