„Breytingar á orkugeiranum vegna EES-aðildar Íslands eru m.a. að skilin hafa verið að framleiðsla og dreifing. Með því hefur bæst við nýr milliliður og hefur það valdið hærri orkukostnaði", segja Friðrik Daníelsson og Sigurbjörn Svavarsson í grein í Morgunblaðinu í dag.
Þeir segja að íslenska orkukerfið sé lítið og telja hagkvæmast að hafa framleiðslu og dreifingu á sömu hendi og sega að íslenska orkukerfið hafi verið eitt það hagkvæmasta á heimsvísu fyrir daga EES.
„Samstarfsaðilar Íslendinga um orkuiðnað vita að íslenska hagkerfið og efnahagslegt sjálfstæði Íslands byggist á einkaafnotarétti og fullu forræði á auðlindunum. Fjárfestarnir hafa hingað til getað samið beint við Íslendinga um orkuna. Aðildarviðræður við ESB eru túlkaðar sem uppgjöf þeirrar stefnu að stjórnvöld hér hafi óskoraðan yfirráðarétt yfir auðlindunum og sem yfirlýsing um að Ísland ætli að gefa frá sér yfirstjórn orkumála", segja þeir félagar m.a. í grein sinni sem lesa má í heild í blaðinu í dag.