Íslendingar þurfa ekki að bíða eftir því að Evrópusambandið ljúki endurskoðun á fiskveiðistefnu sinni, áður en hægt er að taka fiskveiðikaflann til skoðunar í aðildarviðræðum.
Þetta kemur fram í svari Štefan Füle, stækkunarstjóra ESB, til blaðamanns Morgunblaðsins. Þegar spurt er hvort það sé raunhæft að gera ráð fyrir því að aðildarviðræðum verði lokið áður en gengið verður til þingkosninga næsta vor, árið 2013, segist Füle ekki vilja áætla fyrirfram hversu langan tíma aðildarviðræðurnar muni taka. Mikilvægara sé að horfa á að viðræðurnar verði báðum í hag.
Hvað fiskveiðistefnu ESB varðar segir Füle að aðildarviðræður grundvallist á núverandi fyrirkomulagi. Hins vegar sé ESB-löggjöf í stöðugri þróun og þeir vanir að taka á því í aðildarviðræðum. Í aðildarviðræðunum verði því að hafa mögulegar breytingar á sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB í huga.
Þegar spurt er hversu löngum tíma megi gera ráð fyrir í lögfestingu nýs aðildarsamnings hjá ESB-ríkjunum þegar aðildarviðræðum hefur verið lokið segir Füle erfitt að segja til um það enda sé hvert aðildarferli einstakt. Með vísan til fyrri reynslu geti ferlið tekið um eitt og hálft til tvö ár.