„Ég sé ekki að mörg fyrirtæki á Vestfjörðum lifi þessa ofurskattlagningu af,“ segir Sigurður Viggósson, framkvæmdastjóri Odda á Patreksfirði. „Þarna er um að ræða næstum sexföldun veiðigjalds frá því sem er á þessu ári og hvorki við í Odda né önnur fyrirtæki sem eru skuldsett eftir gengisfallið ráðum við slíkt.“
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að fljótlega eftir páska er ráðgerður fundur fyrirtækja í sjávarútvegi á Vestfjörðum til að ræða frumvörp ríkisstjórnarinnar um veiðigjald og fiskveiðistjórnun.
„Sjávarútvegur er langmikilvægasta atvinnugreinin á Vestfjörðum, en afkoman hefur ekki verið til að hrópa húrra fyrir og menn hafa haldið áfram á vilja og þrjósku,“ segir Sigurður. „Þættir eins og margvísleg aðföng, samgöngur og flutningar eru jafnvel á tvöföldu, þreföldu verði, en ríkið hirðir skatt af öllu saman og talar um byggðastefnu. Auðvitað vonar maður að þegar þingmenn fara að reikna þetta út sjálfir átti þeir sig á að þarna er skotið hátt yfir markið."