Paleo er ekki ný tískumatarbóla

Þorbjörg Hafsteinsdóttir.
Þorbjörg Hafsteinsdóttir. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Paleo mataræðið er ekki nýtt og ekki enn ein ný smart fæðuæði bóla. Paleo má þvert á móti rekja aftur til fornalda þegar manneskjan rétti úr bakinu og gekk uppreist, fór að lifa í hellum, kveikja eld og veiða sér til matar. Þróun líkamans og heilans var í samræmi við fæðuúrval og þann mat og næringu sem var til staðar. Val af mat fór efir skynjun og fruminnsæi um hvað var hollt og ekki eitrað. Tilfinning sem nútímamaðurinn hefur því miður tapað og er nánast óviti þegar kemur að uppruna því sem hann / hún velur sér til munns,“ segir Þorbjörg Hafsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur og rithöfundur en hún stendur fyrir námskeiði fyrir karlmenn hjá Lifandi markaði þar sem Paleo fræðin eru í forgrunni.

Dr. Loren Cordain gaf út bókina The Paleo Diet fyrir tíu árum og segir Þorbjörg að hún sé frumkvöðull í því að endurvekja Paleo mataræðið.

„Mataræðið, sem margir telja vera heimsins besta fyrir homo sapiens, gengur sem sagt út á að borða þann mat sem við og líkami okkar er hannaður til að borða með því markmiði að fullkomna líkamsstarfsemina alla. Það var ekki til sykur á þeim tíma, eða allavega ekki unninn sykur, og kornmeti og því eru þær matartegundir alveg úti. Í Paleo er sem sagt ekkert brauð og engin grjón.“

Þegar Þorbjörg er spurð að því hvers vegna Paleo henti okkur segir hún að það sé vegna þess að mataræðið búi til orku og byggi upp vöðva. „Með Paleo viðhöldum við hollri fituprósentu og þar með kjörþyngd. Flestir finna fyrir mun meiri orku sem sagt, jafnvægi og vellíðan bæði andlegri sem líkamlegri. Og svo er það að sjálfsögðu „issúið“ að grennast en það segir sig sjálft, það er óumflýjanlegt, ef líkaminn þarf á því að halda.“

Í fyrra kom bókin 10 árum yngri á 10 vikum eftir Þorbjörgu út á Íslandi. Aðspurð að því hvernig sú bók sé frábrugðin Paleo-mataræðinu segir hún að þetta sé alls ekki mjög ólíkt. „Að sumu leyti minnir það á það mataræði en í mínum fræðum er samt kornmeti leyft, ekki mikið og á ákveðnum tíma sólarhringsins, en það er þar. Og það er ekki þar með sagt að það sé óhollt að neyta kornmetis. Það fer algjörlega eftir vali á gæðum, gerð og magni. Það sem flestir borða í dag eru allir sérfræðingar sem koma að næringu og heilsu sammála um sé óhollt og heilsuspillandi.“

Þorbjörg segir að það skipti máli að sleppa viðbættum sykri, kornmeti, mjólkurvörum, baunamat og mörgum tegundum af ávöxtum ef fólk ætlar að lifa eins og steinaldarmenn. „Þegar við borðum gæðaprótein og gæðafitu vekjum við hormónin sem annars myndu blunda eða verið óvirk svo að segja, en á réttu mataræði vakna þau til lífsins og vinna með orkumyndun, fitutapi og uppbyggingu vöðva m.a. Það er ekki það eina því skerpa og innsæi verður betra. Það er einmitt það sem fólk finnur líka á mataræðinu frá 10 árum yngri því það er að fá miklu meira af þessum mat en það hefur borðað áður.“

Oft er talað um að við verðum að breyta reglulega til í leikfimisæfingunum okkar til að staðna ekki, er það eins í mataræðinu?

„Já kannski. Alla vega virkar alltaf vel að koma líkamanum og huganum á óvart. Við sjáum heiminn og skiljum okkur sjálf og umhverfi okkar oft betur þegar við skiptum um stað. Eins með líkamann. Hann stressast svolítið en fer svo að finna nýjar leiðir. Það er alltaf gott,“ segir Þorbjörg.

Þorbjörg Hafsteinsdóttir.
Þorbjörg Hafsteinsdóttir. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is