„Nú er kominn góður efniviður fyrir auknar aflaheimildir á komandi árum,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, um jákvæðar niðurstöður úr vorralli um ástand þorskstofnsins.
Stofnvísitala hefur hækkað talsvert á milli ára, ástand þorsksins er gott og vísbendingar eru um að árgangurinn 2011 verði mjög sterkur.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag segir Friðrik J. Angrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, að áform stjórnvalda um að færa aflaheimildir frá þeim sem tóku á sig skerðingar þegar nauðsyn bar til varpi skugga á þessar góðu fréttir. „Það er bæði sanngjarnt og eðlilegt að útgerðir, sjómenn og fiskvinnslufólk um allt land sem tóku á sig skerðingar og það mikla tekjutap sem þeim fylgdi fái einnig að njóta að fullu þess árangurs sem aðgerðirnar skila í formi aukins aflamarks,“ segir Friðrik.