Breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og frumvarp um veiðigjöld snerta starf Fiskistofu á margan hátt. Reikna má með fjölgun starfa hjá stofnuninni en þar starfa nú 75 manns.
Starfsmenn Fiskistofu eru þessa dagana að fara yfir frumvörpin og verður umsögn send atvinnuveganefnd Alþingis fyrir lok næstu viku. Eyþór Björnsson fiskistofustjóri segir að einkum sé horft til ýmissa framkvæmdaatriða sem muni breytast verði frumvörpin að lögum. Fiskistofu er áfram ætlað að innheimta veiðigjöld, en ýmsar forsendur þeirra breytast samkvæmt frumvörpunum.
Þá er gert ráð fyrir að hefja á ný starfsemi kvótaþings í umsjón Fiskistofu. Sérstöku gjaldi vegna kvótaþingsins er ætlað að standa undir þeirri starfsemi.