Bankakerfið verður fyrir verulegum fjárhagslegum skakkaföllum verði fyrirhugað frumvarp til laga um veiðigjald að lögum. Ólíklegt verður að teljast að sú upphæð verði undir hundrað milljörðum króna – en gæti hæglega orðið umtalsvert hærri.
Þetta kemur fram í umsögn Ragnars Árnasonar, prófessors í fiskihagfræði við Háskóla Íslands, um frumvarp sjávarútvegsráðherra um veiðigjald.
Sjávarútvegsfyrirtæki skulda bönkum háar upphæðir, stóru viðskiptabönkunum að minnsta kosti 250 milljarða, og í samtali við Morgunblaðið bendir Ragnar á að væntanlegur afgangur af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, um 20-40 milljarðar króna á ári, hafi átt að fara í að endurgreiða þessi lán og tryggingin verið virði kvóta.
„Fyrirhugað veiðigjald skilur því lítið sem ekkert eftir af rekstrarafgangi í fyrirtækjunum og minnkar virði kvótatryggingarinnar um 60% – og sennilega miklu meira. Þar með er stór hluti þessara lána tapaður,“ segir Ragnar og bætir við að bankarnir verði því samkvæmt bókhaldsreglum að afskrifa samsvarandi upphæðir í reikningum sínum.