Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík segir frumvörp til laga um veiðigjöld og stjórn fiskveiða vond fyrir Eyjafjörð, að því er segir í frétt á vef LÍÚ.
Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hélt fund fyrir fullu húsi í Sjallanum á Akureyri í gærkvöld, um áhrif lagafrumvarpa um veiðigjöld og stjórn fiskveiða á svæðið.
„Skemmst er frá því að segja að frumvörpin fengu falleinkunn allra þeirra sem til máls tóku á fundinum. Meðal frummælenda á fundinum voru Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík, Ólafur Marteinsson hjá Ramma, Ólöf Ýr Lárusdóttur forstjóri Vélfangs í Fjallabyggð og Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, sem var fundarstjóri.
Svanfríður Jónasdóttir sagði útfærsla veiðigjaldanna væri „hráslagaleg" í fyrirliggjandi frumvörpum sem hún sagði „vond fyrir Eyjafjörð". Hún sagði það næsta skref sveitastjórnarmanna á svæðinu að boða til sín alþingismenn og fulltrúa í atvinnumálanefnd á fund og greina þeim frá niðurstöðum fundarins í Sjallanum.
„Fólk í héraði hefur gríðarlegar áhyggjur. Óvissan er algjör, mál eru ekki hugsuð til enda, ljósir punktar vart finnanlegir og algjör skortur á samráði. Löggjöfin er vond fyrir Eyjafjörð," sagði Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar.
Ólöf Ýr Lárusdóttir tók svo til orða að markmiðin virðist hreinlega vera að „rífa niður og stefna til fortíðar." Ef svo væri stæðu frumvörpin fyllilega undir tilgangi sínum,“ samkvæmt frétt á vef LÍÚ.