„Verði sjávarútvegsfrumvörpin að lögum sýnist okkur ljóst að mörg sjávarútvegsfyrirtæki nái ekki að vinna sig út úr þröngri stöðu og standa undir skuldum,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, um fyrirsjáanleg áhrif nýju kvótafrumvarpanna á útlánastöðu bankans.
Fram hefur komið að bankinn áætlar að þurfa að afskrifa um 31 milljarð króna af bókfærðu virði lána verði frumvarpið um veiðigjöld samþykkt í óbreyttri mynd. Steinþór segir að fjárhæðin upp á 31 milljarð sé nettótalan sem muni koma sem högg á rekstur og eigið fé bankans en til viðbótar muni háar fjárhæðir afskrifast, fjárhæðir sem færðar hafa verið til varúðar til að mæta óvissu hjá skuldsettum lántakendum.
„Vonir stóðu til að þær varúðarfærslur gætu lækkað með tíð og tíma og virðisaukning lána þannig komið til, meðal annars í framhaldi af fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og með stækkandi fiskistofnum,“ segir Steinþór í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag, og bætir því við að þessar varúðarfærslur muni einnig tapast verði frumvörpin að lögum.