Viðhorf sprautufíkla að breytast

Starfsmaður Rauða krossins að störfum í bílnum Frú Ragnheiði.
Starfsmaður Rauða krossins að störfum í bílnum Frú Ragnheiði. Morgunblaðið/Ómar

„Upplifun okkar er að fleiri koma til okkar með notuð áhöld og það er afskaplega gleðilegt,“ segir Þór Gíslason, verkefnastjóri Frú Ragnheiðar. „Magnið af sprautum og nálum fer stöðugt vaxandi sem við erum að fá til baka og hugsunarhátturinn er svolítið að breytast innan hópsins.“

Greint var frá því á mbl.is fyrr í vikunni að nokkuð hafi verið tilkynnt um það að undanförnu að sprautunálar finnist á víðavangi í höfuðborginni. Þá sagði Herdís L. Storgaard, verkefnastjóri slysavarna barna hjá Slysavarnahúsinu, að eflaust leynist víða enn notaðar sprautur þar sem hreinsunarstarf í borginni sé stutt á veg komið og lítið hreinsað af laufblöðum og úr blómabeðum, þar sem þær geti leynst.

Í kjölfarið bárust Slysavarnahúsinu bréf frá foreldrum en í nokkrum þeirra er verkefnið Frú Ragnheiður gagnrýnt harðlega. Verkefnið sem er á vegum Reykjavíkurdeildar Rauða krossins snýr meðal annars að því að auka sprautufíklum aðgengi að hreinum nálum og sprautum. Auk þess eru afhentar endurgjaldslaust nálafötur og smærri nálabox til að geyma notuð sprautuáhöld í þar til því er fargað.

Skaðaminnkun allra hagur

Verkefnið byggir á skaðaminnkun og segir Þór að gagnrýnin sem fram komi í bréfunum sé á misskilningi byggð. Reynt sé að ná tengslum við þann hóp utangarðsfólks sem í daglegu tali sé nefndur sprautufíklar. „Við reynum að ná tengslum við hópinn og vekja fólk innan hans til meðvitundar um að hægt sé að gera ýmislegt til að draga úr skaða gagnvart þeim sjálfum en ekki síður samfélaginu, þrátt fyrir að vera á þessum stað í lífinu. Þetta snýr því ekki aðeins að því að draga úr skaðsemi sem þau valda sér sjálf með að skiptast á óhreinum nálum og sprautum heldur fyrir samfélagið, t.d. með því að þau verða meðvitaðri um að tiltölulega einfalt er að safna notuðum sprautubúnaði saman og skila til okkar,“ segir Þór.

Verkefnið fór af stað 6. október 2009 og var notast við stórt hjólhýsi. Þá voru tvær vaktir í viku en fyrirkomulagið var dýrt og hjólhýsið óþjált og flókið að meðhöndla. Umskipti urðu hins vegar 21. febrúar 2011 þegar sjúkrabíllinn Frú Ragnheiður var tekin í notkun. Þá fóru vaktir úr tveimur í fjórar í viku og fjölgaði þeim um eina til viðbótar í nóvember síðastliðnum. Einnig var viðkomustöðum fjölgað.

Af tölfræði fyrir síðasta ár má sjá að heildarkomur frá upphafi eru 1.042 en í fyrra voru þær 843. Því er auðséð að komum hefur fjölgað gríðarlega með tilkomu sjúkrabílsins. Langflestir eða um 84% á árinu 2011 komu vegna sprautu- og nálaskipta. Aðrar ástæður eru sárahreinsun, umbúðaskipti, blóðþrýstingsmæling, áverkamat, sýkingamat eða aðeins viðtal.

Tilraun að fara í úthverfi

Þór segir að tíma taki að ná til hópsins og byggja upp traust hans. Þá segir hann að þó svo ákveðinn fjöldi sprautufíkla sé miðsvæðis í Reykjavík haldi þeir einnig til í úthverfum. „Þetta snýst að mörgu leyti um að þau nái til okkar. Þau eru sjaldan mjög færanleg, fæst með bíl eða slíkt, og við höfum verið nokkuð miðsvæðis. Þetta er auðvitað ennþá tilraunarstarf og við erum að þreifa fyrir okkur. Við höfum fengið ábendingar um að neytendur sem búa í austurhluta borgarinnar eigi erfiðara með að koma til okkar miðsvæðis. Þess vegna höfum við verið að prófa fara upp á Höfða. Eins fengum við ábendingar um tiltölulega staðbundinn hóp í Hafnarfirði sem fer ekki mikið annað og við erum að reyna ná til þeirra með að vera staðsett í Firðinum einu sinni í viku til að byrja með.“

Ekki er komin næg reynsla á nýju staðina en í heildina litið segir Þór að ásóknin vaxi stöðugt. „Okkur þykir það afskaplega gott og eins að hópurinn sem kemur til okkar reglulega hefur einnig vaxið mikið. Þannig að þó svo tekist hafi að ná til ansi stórs hóps sem komið hefur til okkar einu sinni eða tvisvar fer hópurinn stækkandi sem kemur til okkar í hverri viku.“

Þá segir Þór að sú þróun, að fastagestum fjölgi hafi orðið til þess að breyta aðeins hugsunarhættinum meðal sprautufíkla. „Þau eru ekki aðeins að koma í auknum mæli til okkar með notuð áhöld heldur einnig að fá stóra dalla til að fara sjálf og hreinsa upp þar sem þau hafa verið. Svo heyrum við að í partíum eru fastagestir okkar að breyta svolítið hugsunarhættinum, að það sé engin þörf á því að deila nálum og sprautum, engin þörf að á því að ganga illa um þetta, þar sem það er svo gott aðgengi. Og það er eitthvað sem þarf að gerast innan hópsins, að menningin breytist. Það tekur tíma en við höfum fulla trúa á því að það muni gerast.“

Ekkert öðruvísi fólk

Þó svo vel gangi að safna notuðum sprautum og nálum berast enn reglulega tilkynningar um að fólk finni slíkt á víðavangi. Þór segir að hafa verði í huga, að þegar fólk er í neyslu sem þessari og hefur ekki athvarf leiti það skjóls og finni það oft í húsasundum eða litlum húsum á leikvöllum þar sem það sprautar sig. Þá er fólk ekki alltaf með fulla rænu og skilur þá eftir sig notaðan búnað. Hann segir sprautufíkla hins vegar ekkert frábrugðna öðru fólki. „Fólk sem er ekki undir áhrifum hendir frá sér sígarettustubbum hér og þar, hendir frá sér bjórglösum og -flöskum. Í miðbæ Reykjavíkur má sjá glerbrot og rusl víða eftir skemmtanahald um helgar. Hvers vegna gerir fólk þetta?“

Hann segir að þessu megi þó breyta til betri vegar með vakningu meðal sprautufíkla. „Og við teljum okkur vera að ná árangri. Þetta er þó ekki eitthvað sem gerist einn, tveir og þrír.“

Ásókn í Frú Ragnheiði hefur aukist mikið.
Ásókn í Frú Ragnheiði hefur aukist mikið. Morgunblaðið/Ómar
Hægt er að fá hjá Frú Ragnheiði nálafötur og smærri …
Hægt er að fá hjá Frú Ragnheiði nálafötur og smærri nálabox til að geyma notuð sprautuáhöld. Morgunblaðið/RAX
mbl.is