Lögræðissvipting ekki felld niður

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands þess efnis að hafna beri kröfu konu fæddri 1977 um að fella skuli niður lögræðissviptingu sem hún hefur þurft að sæta frá 25. febrúar 1997. Dómurinn taldi hagi konunnar ekki þannig að hún sé fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé.

Í dóminum kemur fram að hafi orðið fyrir fötlun í móðurkviði vegna óreglu móður. Hún hafi sjálf sögu um neyslu fíkniefni og útigangslíf og ekki hafi tekist að veita henni meðferð fyrr en eftir lögræðissviptingu.

Í vottorði læknis kom fram að konan hafi bjarglegt vit til daglegs lífs, en hæfni til sértækra ályktana væri mjög óljós. Borið hafi á hömluleysi og dómgreindarleysi, en konan sé með þroskahömlun og persónuleikatruflanir sem valdi því að hún þurfi töluvert aðhald og eftirlit til að lenda ekki í óæskilegum aðstæðum bæði persónulega og félagslega.

Þá lá fyrir vottorð geðlæknis en í því kemur fram að konan sé þroskaheft með alvarlegar atferlistruflanir, auk þess að hún sé haldin geðklofa og hafi átt við að stríða áfengis- og lyfjafíkn. Hún geti ekki stjórnað eigin lífi vegna greindarskorts, dómgreindarleysis og geðsjúkdóms.

Fyrir dómi staðfesti geðlæknirinn vottorð sitt og bætti við að umræddir eiginleikar sem valdi því mati séu þess eðlis að þeir geti ekki breyst. Fengi konan lögræði sitt væri mikil hætta á að hún leiddist til fyrra lífernis.

Dómurinn taldi ekkert hafa komið fram sem renni raunhæfum stoðum undir það að aðstæður og hagir konunnar hafi breyst svo frá því að hún var svipt lögræði sínu, að ástæður lögræðissviptingarinnar séu ekki lengur fyrir hendi.

Sagði að lokum, að óhjákvæmilegt væri því að hafna kröfu konunnar.

mbl.is