Vill halda í íslensku krónuna

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er sá flokk­ur í dag sem mun harðast berj­ast gegn aðild að Evr­ópu­sam­band­inu,“ sagði Hösk­uld­ur Þór­halls­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, á Alþingi í kvöld í umræðum um ut­an­rík­is­mál. Sagði hann stefnu flokks­ins and­snúna því að sækja um aðild að ESB og að sú stefna hefði ít­rekað verið staðfest.

„Það er í raun sorg­legt að hugsa til þess að það hafi tek­ist að selja um­sókn­ina og um­sókn­ar­ferlið sem ein­hvers kon­ar lottóvinn­ing. Að kíkja í pakk­ann, sjá­um hvað við fáum. Eins og að upp úr hatt­in­um verði dreg­in ein­hvers kon­ar töfrak­an­ína sem að leys­ir all­an vanda Íslands,“ sagði Hösk­uld­ur.

Hann sagði í raun hlá­legt að lesa upp úr skýrslu Öss­ur­ar Skarp­héðins­son­ar ut­an­rík­is­ráðherra um ut­an­rík­is­mál sem hann kynnti fyrr í dag þar sem full­yrt væri að í aðild að sam­band­inu fæl­ust marg­vís­leg tæki­færi sem mik­il­vægt væri að horfa til. Það væru hins veg­ar eng­in rök færð fyr­ir því. Sama væri að segja um full­yrðing­ar um að byggðastefna ESB skapaði fjöl­mörg tæki­færi fyr­ir lands­byggðina.

„Það er sagt að Evr­ópu­viðræðurn­ar séu vel á veg komn­ar. Ég held að það sé rangt vegna þess að það á eft­ir að semja um lang­stærstu mál­in,“ sagði Hösk­uld­ur og nefndi fyrst og fremst sjáv­ar­út­veg­inn í því sam­bandi. „Ég get sagt það bara mjög skýrt að ég vil ekki semja um sjáv­ar­út­veg Íslend­inga. Ég vil ekki að aðrar þjóðir hafi heim­ild til að veiða hér fisk­inn í sjón­um og ég tel enga hags­muni geta komið í staðinn fyr­ir þessa mik­il­vægu auðlind lands­ins.“

Hösk­uld­ur rifjaði enn­frem­ur upp að fyr­ir nokkr­um árum hefðu þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar lagt áherslu á að byggja upp banka­kerfið hér á landi og taka evru upp sem gjald­miðil Íslands sem aft­ur myndi leysa all­an vanda þjóðar­inn­ar.

„Ég hef aldrei áður haft eins sterka skoðun á því að Íslend­ing­ar eigi að halda í ís­lensku krón­una,“ sagði hann og vísaði á bug full­yrðing­um um að Íslend­ing­ar gætu ekki haldið úti eig­in gjald­miðli vegna aga­leys­is. Sví­ar hefðu til að mynda búið við sama ástand fyr­ir tveim­ur ára­tug­um en í dag væri eng­in umræða um það þar í landi að taka ætti upp evru í stað sænsku krón­unn­ar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina