„Oft og tíðum fáum við góðar tillögur frá umsagnaraðilum. Það á við sjávarútvegsfrumvörpin eins og hver önnur frumvörp. Við þiggjum allar þær ábendingar sem koma fram og lögum okkur auðvitað að þeim.“
Þetta segir Kristján Möller, þingmaður Samfylkingar og formaður atvinnuveganefndar, en hann útilokar ekki endurskoðun á frumvörpunum á næstu vikum.
Mikill fjöldi umsagna hefur borist nefndinni og segir Kristján að til þeirra verði „að sjálfsögðu“ horft þegar farið verður yfir frumvörpin.
„Ég leyfi mér að halda því fram að ég hafi aldrei samþykkt frumvarp og gert það að lögum sem ekki tók breytingum í meðförum Alþingis. Til þess er þessi ferill allur. Hér á við það fornkveðna: Betur sjá augu en auga.“