„Áhrifin verða að mínu mati skelfileg, ef þetta fer í gegn. Það er verið að setja upp peningadælu til að dæla peningum, mest af landsbyggðinni,“ segir Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, um áhrif stjórnarfrumvarpa um fiskveiðistjórn og veiðigjöld.
Sérfræðihópur sem atvinnuveganefnd Alþingis fékk til að meta áhrif sjávarútvegsfrumvarpanna telur að samþykkt þeirra, einkum álagning veiðigjalds, myndi hafa mikil áhrif á byggðaþróun. Halldóri hafði í gær ekki gefist kostur á að kynna sér álit sérfræðinganna en fréttir af skýrslunni komu honum ekki á óvart.
„Ég reiknaði sjálfur út áhrif veiðigjaldsins, út frá upplýsingum sem liggja fyrir um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum 2009, og fann út að það myndu fara 1,4 milljarðar út af Vestfjörðum, frá fyrirtækjum sem rekin voru með 800 milljóna króna tapi,“ segir Halldór í umfjöllun um kvótafrumvörpin í Morgunblaðinu í dag. Mótvægisaðgerðir gætu kannski skilað 100 milljónum til baka sem hann sagði hlægilega lítið í ljósi umræðunnar. „Fjármagnið á landsbyggðinni mun minnka enn frekar og störfum fækka meira en orðið er,“ segir Halldór.