Alls hafa um 150 aðilar skilað umsögn til atvinnuveganefndar Alþingis vegna fiskveiðifrumvarpa ríkisstjórnarinnar. Þeirra á meðal er Landssamband smábátaeigenda, LS, sem segir sumt í tillögunum til bóta en gagnrýnir annað harðlega og segir möguleika greinarinnar til að dafna verða stórlega skerta verði frumvarpið óbreytt að lögum.
Í umsögn um framsal aflaheimilda er lagt til að þrjár málsgreinar um skerðingu og takmarkanir á þeim veiðirétti sem viðkomandi hefur haft verði felldar út. Framkvæmd þessara tillagna myndi leiða til óvissu og óhagræðis.
„LS mótmælir harðlega skerðingu aflaheimilda um 3% við framsal og telur með ákvæðinu alvarlega höggvið í þann veiðirétt sem fyrirhugað er að færa yfir í nýtingarleyfi,“ segir í umsögninni. „LS fyrir hönd félagsmanna sinna gerir fullan fyrirvara um að krefjast bóta vegna skerðingar á veiðirétti verði ákvæðið að lögum.“