Atvinnuveganefnd mun afgreiða frumvarp sjávarútvegsráðherra um veiðigjald í dag. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru gerðar á því umtalsverðar breytingar. Þar ber hæst að lagt er til að veiðigjald verði lækkað til muna frá því sem er í frumvarpinu.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var ákveðið að bregðast við ýmsum athugasemdum, ekki síst er varða skuldsetningu sjávarútvegsfyrirtækja. Umfangsmesta breytingin er þó lækkun veiðigjaldsins. Unnið hefur verið að breytingunum bæði á vettvangi nefndarinnar og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins.
Haft hefur verið samráð við fjölmarga sérfræðinga, meðal annarra Daða Má Kristófersson, dósent við Háskóla Íslands. Hann skrifaði, ásamt Stefáni B. Gunnlaugssyni lektor við Háskólann á Akureyri, greinar gerð um frumvarpið þar sem kom fram að sjávarútvegur gæti ekki staðið undir því veiðigjaldi sem frumvarpið lagði til.
Atvinnuveganefnd fól þeim að reikna áhrif þess að sérstakt veiðigjald yrði lækkað um helming. Niðurstaða Daða Más og Stefáns var að svo mildari útgáfa hefði nokkur áhrif á getu fyrirtækjanna til að greiða upp skuldir.
„Okkar mat er að flest stærstu sjávarútvegsfyrirtækin ráði vel við þessa útfærslu,“ segir í greinar gerðinni. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hver upphæð veiði gjaldsins verður eftir breytingarnar.
Heimildir Fréttablaðsins herma þó að það gæti skilað allt að 14 til 15 milljörðum í ríkissjóð. Enn hefur þó ekki verið tekin ákvörðun um málið og unnið er að því að sameina sjónarmið úr skýrslu sérfræðinganna og hugmyndir ríkisstjórnarinnar um gjaldheimtu.