„Auðvitað verður tekið tillit til umsagna sem hafa borist um veiðigjaldið, þ.m.t. frá sérfræðingahópnum sem nefndin skipaði sjálf til að fara yfir frumvörpin.“
Þetta segir Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG og einn fulltrúa flokksins í atvinnuveganefnd, í Morgunblaðinu í dag um endurskoðun á einu meginefni sjávarútvegsfrumvarpanna.
Hvaða tölur sé horft á í þessu efni sé ótímabært að ræða á þessu stigi. Hann staðfestir þó að horft sé til þess að endurskoða gjaldið niður á við, þótt ekkert hafi verið ákveðið.
Samkvæmt starfsáætlun Alþingis á þingið að starfa til 31. maí eða til fimmtudags í næstu viku. Mánudagur er annar í hvítasunnu og frídagur á þingi og þriðjudagurinn eldhúsdagur. Dagurinn í dag er nefndardagur og er tíminn því naumur. Björn Valur telur að óbreyttu því ekki raunhæft að afgreiða bæði fiskveiðistjórnunarfrumvörpin fyrir 31. maí.