„Það eru allar áhafnir í landi í dag og mér finnst í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að menn vilji í ljósi stöðunnar fara með sínu starfsfólki yfir hlutina,“ sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd Alþingis um tilmæli LÍU um að félagsmenn haldi skipum sínum í höfn eftir helgina.
„Það er náttúrulega mjög breið andstaða við þessi frumvörp ríkisstjórnarinnar, eins og þau liggja frammi, frá öllum aðilum sem að þessu koma. Ekki síður sjómönnum og verkalýðsmegin,“ sagði Jón og bætti við: „Kjaraviðræður eru í gangi og auðvitað þurfa menn að fara yfir það hvaða mögleika þetta getur haft á stöðu kjarasamninga.
Mér finnst nú ekkert óeðlilegt að útgerðin noti þetta tækifæri og bæði fundi með sínu starfsfólki og eins að þessir aðilar geti fundað með sínum verkalýðssamtökum.“