„Það liggur alveg fyrir að það hafa farið fram fjölmargir fundir hér í sjávarútvegsráðuneytinu frá áramótum eftir að ég kom hingað þar sem menn hafa skipst á skoðunum, rætt málin og upplýst hefur verið um gang vinnunnar,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna ummæla Landssamband íslenskra útvegsmanna um að ekkert samstarf hafi verið á milli útvegsmanna og ríkisstjórnarinnar um breytingar á sjávarútvegslöggjöfinni.
Fyrr í dag var það gefið út að Landssamband íslenskra útvegsmanna og aðildarfélög þess hefðu samþykkt að halda skipum sínum ekki til veiða eftir sjómannadag. Er það gert vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem blasir við íslenskum sjávarútvegi verði frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld sem nú eru til meðferðar á Alþingi að lögum.
Einnig segir í tilkynningu frá LÍÚ að útvegsmenn hafi ítrekað leitað eftir samstarfi við stjórnvöld um niðurstöðu um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða en án árangurs.
Steingrímur sagði hins vegar að farið hafi fram fjölmargir fundir. „Og síðan hafa útgerðarmenn af sjálfsögðu haft allan aðgang að meðferð Alþingis á þeim frumvörpum sem þar eru nú til meðhöndlunar. Eins og vera ber og er innbyggt í hina þinglegu meðferð mála,“ sagði Steingrímur.
Útvegsmenn munu í næstu viku funda með starfsfólki, sveitarstjórnum og fjölmörgum aðilum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi um áhrif þess ef frumvörpin verða að lögum.