Öll börn sitji við sama borð

Nokkur gagnrýni kom fram á málþingi um skýrslutökur af börnum í sakamálum, á það lögfesta fyrirkomulag að aðeins sé heimilt að taka skýrslur af börnum undir 15 ára í Barnahúsi en ekki 15-18 ára. Innanríkisráðherra velti því fyrir sér hvort lagabreytingar sé þörf til að öll börn sitji við sama borð.

Málþingið fór fram í Háskóla Íslands í hádeginu en að því stóðu sameiginlega innanríkisráðuneytið og lagadeild HÍ. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hóf málþingið á ávarpi þar sem hann sagði gott samstarf hafa tekist á milli lagadeildar og ráðuneytis um samræðu um meðferð kynferðisbrota, og sé málþingið liður í því.

Ögmundur sagði menn þurfa að hafa það hugfast að börn eru börn fram að 18 ára aldri. „Börn á aldrinum 15 til 18 ára njóta ekki sömu réttarverndar og önnur börn. „Verði þau fyrir kynferðislegu ofbeldi fá þau ekki aðgang að Barnahúsi og þeirri þjónustu sem þar er boðið upp á. Þeirri spurningu er varpað fram hér í dag hvort þessi munur sé réttlætanlegur. Ekkert bendir til þess að afleiðingar af ofbeldi séu á einhvern hátt vægari fyrir börn á þessum aldri en önnur börn, jafnvel þótt gerendur kunni að vera nær þeim sjálfum í aldri.“

Hann sagðist mjög afdráttarlaust á þeirri skoðun að börn á Íslandi yrðu að sitja við sama borð í þessum efnum. „Ég spyr: Er það virkilega svo að lagabreytingu þurfi til, til að tryggja slíkt jafnræði?“

Þungbært að gefa skýrslu fyrir dómi

Sandra Baldvinsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, svaraði því óbeint til að lagabreytingu þyrfti. Með setningu laga um meðferð sakamála hafi verið farið að miða við 15 ár en ekki 18 ár eins og áður. Hún sagði skýringuna á því tengjast sakhæfisaldri, en bætti við að hún hefði gjarnan viljað sjá ítarlegri rökstuðning fyrir þessari ákvörðun löggjafans.

Í 9. grein laga um meðferð sakamála segir: „Nú þarf að taka skýrslu af barni, yngra en 15 ára, og getur dómari þá ákveðið að það skuli gert í sérútbúnu húsnæði á öðrum stað ef það þykir æskilegra með tilliti til hagsmuna barnsins.“

Hafi barn því náð 15 ára aldri þarf það að gefa skýrslu fyrir dómi. Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, segir það geta verið afar þungbært börnum sem oft þjást af þunglyndi og kvíða í kjölfar þess að hafa orðið fyrir ofbeldi. Hún sagðist því velta fyrir sér hvers vegna fimmtán ára og eldri börn eigi að fá öðruvísi þjónustu.

Hún sagði það geta tekið nokkur skipti í meðferð í Barnahúsi að vinna úr því að fara fyrir dóm. „Það er erfitt fyrir fullorðna að fara fyrir dóm,“ benti hún á máli sínu til stuðnings og spurði hvort taka ætti hagsmuni barnanna eða réttarvörslukerfisins fram fyrir.

Eldri börn á viðkvæmum aldri

Símon Sigvaldason, formaður dómstólaráðs, var á meðal gesta á málþinginu en hann tók til máls eftir að framsögumenn luku máli sínu. Hann sagði reynslu sína af Barnahúsi sérstaklega góða og umhverfið skipti verulegu máli þegar kemur að skýrslutökum yfir börnum. Hann sagðist geta sagt með vissu að sjá megi að börn verði fyrir nokkurs konar áfalli við að koma inn í dómhús og þurfa að ganga um það áður en kemur að skýrslutökunni.

Þá benti Símon á að börn á milli 15 og 18 ára séu á viðkvæmum aldri og það kunni að skipta máli þegar á heildina er litið í þessu máli.

Úr Barnahúsi.
Úr Barnahúsi. Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is