Nærri 60 kynferðisbrot gegn börnum

Lögreglufulltrúi vill kynferðisbrotadeild á landsvísu.
Lögreglufulltrúi vill kynferðisbrotadeild á landsvísu. mbl.is/Kristinn

Kynferðisbrotadeild lögreglu höfuðborgarsvæðisins fékk 399 verkefni á árinu 2011. Þar af voru 58 mál þar sem til rannsóknar var kynferðisbrot gegn barni. Fórnarlömbin eru þó fleiri því í einhverjum málum var brotið gegn fleiri en einu barni.

Á málþingi um skýrslutökur barna í sakamálum flutti framsöguerindi Kristján Ingi Kristjánsson, lögreglufulltrúi í kynferðisbrotadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hvað tölfræðina varðar sagði hann að eflaust mætti tvöfalda málafjöldann ef allt landið væri tekið inn í reikninginn.

Kristján benti á að lögreglan sé sjaldan tekin með í umræðuna þegar kemur að kynferðisbrotum gegn börnum, og það þó svo hún beri hitann og þungan af rannsókn málanna frá upphafi. Hann sagði gríðarlegar framfarir hafa orðið á undanförnum árum og mikla reynslu hafa orðið til hjá kynferðisbrotadeildinni, sérstaklega í yfirheyrslutækninni.

Þá minntist hann á hversu erfið þessi mál geti verið. Í einu þeirra hafi lögreglumenn spurt stúlku á sjötta ári hvort henni hafi verið sagt til hvað hún ætti að segja. Sagði þá stúlkan frá því að móðir hennar hafi lofað henni að fara í Ævintýraland í Kringlunni ef hún segði frá því að faðir hennar hafi snert hana. Ef hún gerði það ekki yrði ekki farið í Ævintýraland.

Kristján sagði lögreglu því þurfa að stíga afar varlega til jarðar, ekki síst þegar harðar forræðisdeilur eru að baki ásökunum. Það væri skelfilegt fyrir hvern sem er að vera ásakaður um verknað sem þennan, enda erfitt að losna við þann stimpil þrátt fyrir að rannsókn sé látin niður falla.

Ein deild starfi á landsvísu

Í erindi sínu kom Kristján einnig inn á að úrræði vanti fyrir þá sem brjóta af sér. Margir geri sér eflaust ekki grein fyrir því en það þurfi að hlúa að barnaníðingum einnig, finna meðferðarúrræði. „Við hendum þeim í grjótið ef við náum að sakfella þá, en hvar er svo eftirlitið. Það þarf rafrænt eftirlit, og fylgja þessum mönnum eftir með viðtölum.“

Kristján sagði einnig, að mjög þjálfað og vant fólk starfi hjá deildinni og í raun ætti að vera ein deild á landvísu sem myndi rannsaka þessi mál, þ.e. brot gegn börnum. Hann sagði að nýta bæri þá þekkingu sem sé til staðar og spurði hvers vegna fórnarlömb á Vopnafirði fái ekki sömu þjónustu og í Reykjavík.

mbl.is