„Skipin eru núna á milli 60 og 70 í Reykjavíkurhöfn. Þetta gengur áfallalaust fyrir sig og þetta stokkast vel upp,“ segir Halldór Valdemarsson hafnsögumaður hjá hafnsöguvakt Reykjavíkurhafna. „Við búumst við nokkrum skipum í viðbót framyfir hádegi, en lunginn af skipunum er kominn í höfn.“ Þá hafa nokkur skip komið til Hafnafjarðar.
Með skipunum sem komið hafa til hafnar í dag eru um þúsund sjómenn. Mikill erill er á höfninni og mikið af fólki hefur safnast þar saman. Halldór segir þetta mjög óvenjulegt og svona sé þetta ekki á hverjum degi. Margir eru forvitnir um þetta og skipin vekja áhuga hjá mörgum.
Tilefnið er samstöðufundur sjávarútvegsins sem haldinn verður á Austurvelli kl. 16 í dag. Fundurinn er haldinn til að hvetja Alþingismenn til að hlusta á sjónarmið sjávarútvegsins og hafa samvinnu við greinina og sérfræðinga á sviði sjávarútvegsmála við að leiða til lykta deilur um fiskveiðistjórnun og veiðigjöld. Búist er við fjölda fólks á fundinn.
Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá Reykjavíkurhöfn hér.